Umsagnir

15. júlí 2013

STÓRT STÖKK TIL FRAMTÍÐAR

Það er mér mikið gleðiefni að skrifa greinarkorn í kjölfar þess að Alþingi hefur samþykkt frumvarp um stækkun smábáta.  Ég var reyndar ekki í nokkrum vafa um að þetta hefðist, enda um að ræða stórt stökk til framtíðar á smábátum.  Framtíðar með stærri og öruggari bátum, bættri vinnuaðstöðu, bættum aðbúnaði sjómanna og ekki síst betri umgengni um hráefnið.

 

 Ég vil þakka öllum þeim aðilum sem rituðu nöfn sín á undirskriftarlistana og studdu þannig við óskir okkar, sem störfum á smábátum allt árið um stækkun þeirra í 15 metra.  Sérstaklega vil ég þakka þeim þingmönnum sem skoðuðu rök okkar og sáu hversu sjálfsögð þessi krafa okkar er með tilliti til öryggis og betri aðstöðu til vinnu og hvíldar svo ég tali nú ekki um hreinlætisaðstöðu.

Fyrir stuttu sigldi ég 15 metra báti sem mælist 30 brúttótonn frá Belgíu til Íslands.  Við vorum fjórir um borð í sex sólarhringa og fengum bæði gott og slæmt veður.  Þvílíkur munur frá 15 brúttótonna Cleópötrubátnum sem ég hef róið á síðastliðin sex ár, en stærri báturinn er sömu gerðar.  Hægt var að hvíla sig í svefnklefa sem er undir brúargólfinu í stað þess að hvíla frammi í lúkar.  Algjör friður fyrir kokknum sem glamraði með potta og pönnur í lúkarnum.  Sturta daglega og engin kvíðatilfinning þó svo suðvestanáttin slægi upp fyrir 20 metra annað slagið.

Ég trúi því að þessi breyting verði til þess að ég og fleiri mínír líkar endist nokkrum árum lengur til sjós en ella og framboðið á eftirsóttasta fiski í ferskfiskútflutning sem til er aukist enn frekar.  Til hamingju sjómenn með þetta stóra stökk inn í framtíðina!