Fréttir

30. apríl 2014

Skipstjóra á smábát dæmdar 3 milljónir í bætur vegna vangoldins aflahlutar

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt Lukku ehf. til að greiða skipstjóra sem var á bátnum Narfa SU um nokkurra mánaða skeið tæpar þrjár milljónir króna auk vaxta og greiðslu málskostnaðar vegna vangoldins aflahlutar hans frá hausti 2012 til janúarmánaðar 2013. Þá staðfestir héraðsdómur sjóveðrétt í bátnum vegna þessara krafna. Formaður sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur segir þennan dóm mikinn sigur í réttindabaráttu sjómanna. Deilan snýst um hvernig staðið skuli að uppgjöri til áhafna smærri báta, hvort heimilt sé útgerðinni að draga 30% frá heildaraflaverðmæti fyrir skipti til áhafnar eða ekki. Samkvæmt kjarasamningi sem Landssamband smábátaeigenda gerði við samtök sjómanna, SSÍ, FFSÍ og VM og tók gildi 29. ágúst 2012 skal gert upp við sjómenn á smábátum af heildaraflaverðmæti og komi 21,6% til skipta enda sé búið að gera ráð fyrir olíukostnaði við ákvörðun skiptaprósentunnar. Sjómaðurinn taldi að uppgjör hans hefði ekki verið í samræmi við þennan kjarasamning og höfðaði því málið og vann. Útgerðin, Lukka ehf. taldi sig hins vegar eiga að gera upp eftir kjarasamningi LÍÚ og stærri línubáta, þar sem heimilt er að draga 30% frá heildaraflaverðmæti vegna olíukostnaðar fyrir skipti samkvæmt lögum nr. 24 frá 1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Dómurinn féllst á allar kröfur sjómannsins og taldi engan vafa leika á því að haga bæri uppgjöri í samræmi við kjarasamninga á smábátum. Því bæri útgerðinni að greiða kröfur sjómannsins að fullu. Sjómaðurinn er félagi í Sjómanna- og vélstjórafélagi Grindavíkur sem aðstoðaði hann við málsóknina. Birgir Guðfinnsson, formaður SVG, segir í samtali við kvotinn.is að þetta sé stórsigur fyrir sjómanninn og hann hvetur aðra sem eru í sömu stöðu til að sækja rétt sinn á sama hátt. Lukka sé dótturfélag smábátaútgerðarinnar Einhamars í Grindavík og á bátum Einhamars hafi verið gert upp við sjómenn á sama hátt og á Narfa. „Þarna eru miklar upphæðir í húfi fyrir marga sjómenn og sömuleiðis skiptir þetta félagið okkar máli, því uppgjör af þessu tagi draga úr félagsgjöldum til okkar sem miðast við heildarlaun sjómanna. Ég hvet því þá sem eru í þessari stöðu til að koma á skrifstofuna hjá okkur til að fá aðstoð við að leita réttar síns,“ segir Birgir.  

 Tekið af www.kvotinn.is 30.04.2014