Fréttir

31. mars 2014

Ekkert hlustað á sjómenn

Það er sama hvað sjómenn kvaka um hversu mikið er af ýsu í sjónum, það er ekkert hlustað.

Ég er búinn að vera kringum smábátaútgerð frá 1997 en þá var ýsan utan kvóta.  Á þeim tíma reyndum að veiða ýsu með ýmsum brögðum til dæmis að nota sandsíli eða sérvalda pokabeitu.  Á þeim tíma var ýsan á litlu svæði en síðustu 5 árin hefur grunnslóðin verið full af ýsu frá júní  út febrúar, sama hvar lagt var á Vestfjarðamiðum og reyndar um allt Norðurland.  Í dag þurfa bátarnir að sigla út fyrir ýsuslóðina, út á djúpslóð á togaraslóðir, með miklum tilkostnaði og oftast við erfið veðurskilyrði. Ég er nokkuð viss um að togarallið gefur ekki rétta mynda af slóðinni frá því það var sett á fyrir um það bil 30 árum.  Þá var ískaldur sjór með öllu Norðurlandinu og veiddist aðallega rækja.  Frá þeim tíma hefur sjórinn hlýnað mikið. Mjög mikil útbreiðsla af ýsu er á grunnslóð á Vestfjarðarmiðum, Húnaflóa og fyrir öllu Norðurlandinu. Veldur það bátum á þessum svæðum miklum erfiðleikum þar sem lítil ýsuveiði var á þessum slóðum á viðmiðunarárum ýsunnar. Nú verða útgerðir á þessum svæðum að leigja ýsu úr aflamarkskerfinu á mjög háu verði eða á kr.  300-310 per. kg.  Sumir hafa neyðst til að stoppa og eins og útlitið er í dag er mjög líklegt að sífellt fleiri útgerðir muni neyðast til að stoppa og segja upp starfsfólki.   Ljóst er að alltof litlar úthlutanir eru í krókaaflamarkskerfinu af ýsu en aflamarkskerfið er með meira en nóg sem sést best þegar skoðuð eru þau þúsundir tonna af ýsu sem leigð hafa verið niður í krókaaflamarkskerfið. 

 

Fyrir rúmu ári síðan sat ég fund hjá Hafrannsóknarstofnun.  Þar lagði ég til að tekið yrði upp línurall sem gæti verið notað til samanburðar við togararallið.  Hafró fannst þetta ekki góð hugmynd þar sem togararallið gæfi svo góða mynd af ástandi fiskistofna.   Ég hélt að vísindamenn ættu að vera opnir og víðsýnir en ekki staðnaðir embættismenn.   Þeir hafa þó sér til málsbóta að þeim er ekki úthlutað nægilegu fjármagni til rannsókna. 

 

Mín skoðun er sú að við eigum að veiða 50 þús. tonn af ýsu árlega sem er meðalafli í ýsu frá síðustu aldamótum, sjá meðf. töflu sem byggð er á gögnum frá Hagstofu Íslands.  Fiskifræðingar hafa miklar áhyggjur af lélegum árgöngum í ýsu síðustu ár.  Er ég viss um að þær áhyggjur gætu minnkað ef áherslur rannsóknaveiðanna yrðu í grynnri sjó.  Vissulega er minna af smáýsu á hefðbundinni veiðislóð en ef farið er upp fyrir 25 faðma, t.d. hér í Ísafjarðardjúpi á haustin er stagur af undirmálsýsu.

 

Mér finnst togararallið vera svipuð vísindi og ef við værum enn að telja mannfjölda á Hornströndum í dag eins og gert var árið 1940 til að áætla fólksfjölda á Íslandi.

 

Hér með hvet ég fiskifræðinga og sjávarútvegsráðherra að fara að vakna til lífsins.  Markaðir eru í hættu og störf að tapast. Einnig er erfitt að sjá hvernig smábátaútgerðir eiga að geta sótt úthlutaðan þorsk með stækkandi þorskstofni ef ýsukvótinn verður ekki aukinn.

 

Virðingarfyllst,

   

Guðmundur Einarsson skipstjóri og útgerðarmaður í Bolungarvík.