Fréttir

17. febrúar 2014

Meira um ýsuvandamál smábáta.

 Vegna frétta af fundum sjávarútvegsráðherra, Hafrannsóknarstofnunar og smábátasjómanna, vegna mikillar ýsuveiði, má ég til með að koma upplifun minni að, sem skipstjóra á línubát af miðunum í kringum Snæfellsnes.  Kannski er rétt að taka fram að ég hef verið til sjós frá 1968 og skipstjóri frá 1988.  Ég hef ekki lagt einn einasta línuspotta á hefðbundna veiðislóð á þessu fiskveiðiári til þess að forðast ýsuna. 

 Samt er ýsan 40-45% af aflanum á móti þorski á veiðislóð þar sem ýsa hefur ekki fengist nema í mjög litlum mæli síðustu áratugi.  Leggi maður línuna á hefðbundna veiðislóð á þessum tíma árs þar sem eðlilegt væri að ýsan væri 20-30% af aflanum er hlutfallið í dag 80-90% ýsa og mjög mikil veiði.  Við þessar aðstæður sem hér er lýst neyðumst við til þess að róa 15 til 20 mílum dýpra með því óhagræði og kostnaði sem því fylgir.  Allir ættu að gera sér grein fyrir því að slíkt er mjög óheppilegt á þessum árstíma þegar veður geta verið válynd eins og verið hefur undanfarnar vikur.  Smábátaflotinn kláraði ýsuheimildir sínar fyrir jól og hefur síðan leigt hundruði tonna úr aflamarkskerfinu og nú er staðan sú að menn fá ekki lengur leigt, það er ekkert framboð af leigukvóta.  Nú er útlit fyrir að mörgum bátum verið lagt og beitningamönnum sagt upp þó svo að talsverðar heimildir í þorski, ufsa og steinbít séu óveiddar.  Þrátt fyrir þá alvarlegu stöðu sem að framan er lýst þá virðist engin lausn í sjónmáli hjá stjórnvöldum.  Því tel ég tilefni til að minna á tillögur SSÚ frá aðalfundi samtakanna þar sem m.a. var bent á leiðir til lausnar þessum vanda.  Þar var m.a. lögð til svokölluð ígildaleið en í henni felst að menn gætu veitt ákveðinn hluta af úthlutuðum aflaheimildum í ígildum óháð tegund.  Önnur tillaga felst í því að krókaaflamarksbátar fái heimild til að veiða eigin kvóta í þorskanet.  SSÚ kom inn á ýmsar leiðir á aðalfundi samtakanna sem geta orðið til bóta við væntanlegar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða og erum við reiðubúnir til viðræðna hvenær sem er.

Bárður Guðmundsson, formaður SSÚ, Samtaka smærri útgerða