Fréttir

2. janúar 2014

Í tilefni viðtals við Halldór Ármannsson

 Í tilefni viðtals við Halldór Ármannsson formann Landsambands smábátaeigenda í Brimfaxa, félagsblaði LS, má ég til með að birta nokkrar staðreyndir.  Tilefnið er að Halldór notar m.a. bát okkar feðga Kristinn SH til viðmiðunar í hræðsluáróðri sínum gegn stærri smábátum en 15 tonnum.  Kristinn SH hefur verið til frá árinu 2001, fyrst sem 6 tonna bátur, síðan koma tveir 15 tonna bátar og nú síðast 30 tonna.  Allir hafa þessir bátar verið fengsælir og veitt 700 - 1200 tonn á ári að síðasta Kristni frátöldum.  Það er ekki komið heilt ár á þann bát en vonandi stendur hann sína pligt og verður á topp 10 listanum.  Það er því ekki rétt hjá Halldóri að bera aflabrögð Stellu GK og Kristins SH saman en Kristinn SH hefur í mörg ár róið með 60 bjóð og fjóra menn í áhöfn.  Varðandi mismun á róðrafjölda og afla í nóvember vil ég geta þess að Kristinn SH er með viðunandi kvóta í ýsu og hefur því getað sótt mun meira í Húnaflóann í ótíðinni sem verið hefur í haust.  Stella GK hefur að sögn Halldórs reynt að sækja í þorsk á Skagagrunnið á sama tíma.  Það er því ólíku saman að jafna eins og flestir munu sjá sem ekki eru í hefndarhug gagnvart stækkuninni.  Einnig vil ég geta þess að það er 15 tonna bátur sem fiskaði tæp 2000 tonn í fyrra! 

 Sem formaður SSÚ vil ég leiðrétta endurminningar Halldórs um ástæður stofnunar SSÚ.  Það er ekki rétt að það hafi einungis nokkrir menn þrýst á um stofnun nýs félags smábáta.  Þeir voru á annað hundrað, sem flestir eru þó enn í LS af einhverjum ástæðum sem mér eru ekki kunnar.  Við sem fórum höfðum ítrekað reynt að fá stjórn LS til að vinna ekki á móti okkur í þeirri viðleitni að fá mælingu breytt í 15 metra mestu lengd.  Ekki gengi að einungis Bíldsey hefði þetta leyfi eða það sem verra var að til stóð að flytja hana upp í aflamarkið með heimildir sínar í krókaaflamarki.  Nokkrum útgerðarmönnum tókst að koma í veg fyrir það með því að mæla sína báta upp fyrir 15 tonn með rörbútum án þátttöku LS.  Hvers vegna?  Það er ekki leyndarmál að stjórn LS barðist af mikilli heift gegn því að stækkunin færi í gegn. Eftir að Alþingi samþykkti 15 metra sáum við nokkrir okkur knúna til stofnunar nýs félags því það var krafa þeirra sem skrifuðu sig á undirskriftarlista fyrir stækkuninni.  Sjálfur hef ég verið í LS frá 1997, lengst af í stjórn Snæfells og setið fjölmarga aðalfundi LS.  Mér er annt um félögin og óska þeim alls hins besta og vona að við getum átt samstarf á sem flestum sviðum í framtíðinni.  Ég minnist þess að á flestum ef ekki öllum aðalfundum LS sem ég hef setið var aflakóngi ársins færður blómvöndur og hrósað fyrir dugnað með lófaklappi.  Nú erum við trillukarlar hræddir  með því að það þurfi einungis 40 -50 svona hetjur til að gera út af við okkur hina eitt þúsund.  Halldór segir afla smábáta hafa tífaldast frá stofnun LS.  Ber okkur að fagna þeim árangri eða harma?  Halldór get ég róað með því að okkur feðgum sem standa að útgerð Kristins SH hugnast ekki að vera á leigumarkaði í meira mæli en seinustu ár.  Að lokum þakka ég öllum samstarfið á árinu með ósk um fengsælt og friðsælt ár 2014.

Bárður Guðmundsson, Ólafsvík

formaður SSÚ og útgerðarmaður Kristins SH