Aðalfundur SSÚ samantekt
Aðalfundur SSÚ samtaka smærri útgerða var haldinn 1. vetrardag á Grand hóteli í Reykjavík. Formaður félagsins Bárður Guðmundsson setti fundin og var þorri félagsmanna mættur. Bárður rakti síðan í grófum dráttum gang stækkunarmálsins sem var kveikjan að stofnun félagsins. Fundarmenn fögnuðu niðurstöðu þess og hvöttu nýja stjórn til að hafna sameiningarhugmyndum við LS í framhaldinu.
Ýmis hagsmunamál voru svo tekin fyrir og báru þar hæst áskorun á stjórnvöld að auka við veiðiheimildir a.m.k. í þorski og ýsu nú þegar. Einnig hvetja samtökin ráðherra til að stofna sérstakan ívilnunarpott fyrir báta með beitningavélar auk þess að bæta verulega í pott balabáta allavega til samræmis við þá aukningu í þorski sem fyrirsjáanleg er. Fundurinn telur óhjákvæmilegt að krókabátar fái leyfi til þorsknetaveiða ef fram fer sem horfir með áframhaldandi aukningu í þorski og skerðingu í ýsu. Fundurinn fagnar afnámi greiðslumiðlunar enda óþarfa kostnaður sem þar hefur farið í milliliði sem ekkert hefur að gera með nútíma atvinnurekstur. Fundarmenn fagna því að ákveðnu jafnvægi virðist vera náð í strandveiðum, þar sem bátum fækkar í fyrsta sinn í því kerfi og hvetur til þess að meiri jöfnuði verði komið á á milli svæða. Valkostum hefur líka fjölgað með tilkomu makrílsins og má því aldrei verða kvótasett í þeirri tegund fyrir krókaveiðar. Málefni Hafró voru mikið til umræðu og telja fundarmenn afar mikilvægt að á fót verði komið aflaráðgefandi nefnd skipstjórnarmanna og sjómanna enda mikilvægt að þeir aðilar komi hér að málum. Þarna er vannýtt auðlind þekkingar. Sjálfur hef ég í þau 45 ár sem ég hef starfað við fiskveiðar reynt að temja mér að hugsa eins og þorskur. Loks, þegar mér finnst það hafa tekist og ég fiskað þorsk eins og berserkur, sér hann alltaf við mér. Stingur mig af og ég er alltaf tveimur skrefum á eftir honum. Hann bara breytir um mynstur ár eftir ár og ég þarf alltaf að byrja upp á nýtt. Mig grunar að sá guli leiki sama leikinn við Jóhann Sigurjónsson og félaga hans hjá Hafró. Ýsan aftur á móti er heimsk enda lítur þorskurinn niður á hana. Hún hefur þó vit á því að fela sig inni á flóum og fjörðum þar sem fæstum dettur í hug að leita hennar, allra síst Hafró, en hún finnst oft í brælum þegar bátar leita skjóls og leggja línustubba fyrir rælni.
Bárður Guðmundsson