Fréttir

29. janúar 2015

Heimildamynd um sögu íslenskra vita

 Ný heimildamynd um sögu íslenskra vita. http://vimeo.com/114219142

Ljósmál ehf. vinnur nú að gerð heimildarmyndar um sögu íslenskra vita. Þetta er fyrsta mynd sinnar tegundar hér á landi og er unnin í samstarfi reyndra innlendra kvikmyndagerðarmanna og Íslenska vitafélagins, með stuðningi Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.

Ísland vitavæddist á rúmum 80  árum, og sú uppbygging er stór hluti af framfara- og sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, sögu hafnamála, útgerðar og fiskveiða og síðst en ekki síðast öryggismálum sjómanna og sæfarenda.  Margir af þeim sem tengjast siglingum og sjávarútvegi þekkja sögu vitana vel og vita hversu mikilvægt þeirra hlutverk var.

Leikstjóri myndarinnar er Einar Þór Gunnlaugsson, framleiðandi er Dúi J. Landmark, handritshöfundur er Kristján Sveinsson sagnfræðingur, ráðgjafi er Sigurbjörg Árnadóttir og tónlist semur Ragnhildur Gísladóttir.

Mikill metnaður er lagður í framleiðslu myndarinnar, jafnt til að hægt sé að gera vitasögunni skil á sem bestan hátt, en einnig til þess að hið sjónræna umhverfi vitanna fái að njóta sín til fullnustu. Sýningar verða bæði í sjónvarpi og kvikmyndahúsi, auk erlendra kvikmyndahátíða og ráðstefna sem t.a.m. tengjast strandmenningu allri, vitum og sjósókn.  Til að gefa gleggri hugmynd um verkefnið má hér sjá kynningarmyndband:  

http://vimeo.com/114219142


5. desember 2014

Heimilt að skipta á þorski fyrir ýsu á milli kerfa.

Sjávarútvegsráðherra hefur gefið út reglugerð þar sem heimilað er að flytja aflamark í þorski frá krókaaflamarksbátum til skipa með aflamark í jöfnum skiptum fyrir ýsu. 

Þetta hefur verið eitt af helstu baráttumálum SSÚ vegna þess mikla vanda sem að krókaaflamarksbátum hefur steðjað vegna mikillar ýsugengdar á grunnslóð og minnkandi ýsukvóta.

Samtök smærri útgerða SSÚ ályktuðu um málið á aðalfundi félagsins 21. nóvember sl. þar sem skorað var á ráðherra að heimila flutning aflamarks í þorski fyrir ýsu á grundvelli þorskígilda á milli kerfa.  Útgáfa þessarar reglugerðar er því félagsmönnum SSÚ  mikið fagnaðarefni.

 

27. nóvember 2014

Ályktanir aðalfundar SSÚ 21. nóvember 2014.

 

Ályktanir aðalfundar SSÚ 2014

 

Aðalfundur Samtaka smærri útgerða hvetur til þess að smábátar fái að nýta þau veiðarfæri sem best henta hverju sinni til að sækja sinn kvóta. Það hefur verið erfitt fyrir smábáta að sækja sinn þorskkvóta vegna mikillar ýsugengdar á grunnslóð.  Það myndi létta mjög á vandanum ef smábátum yrði gert kleift að nýta þau veiðarfæri sem þeir telja best henta hverju sinni.

 

Aðalfundur Samtaka smærri útgerða hvetur sjávarútvegsráðherra til að heimila flutning aflaheimilda í þorski frá krókaaflamarkskerfi yfir til aflamarkskerfis fyrir ýsu á grundvelli þorskígilda innan fiskveiðiársins.  Lögum um stjórn fiskveiða hefur þegar verið breytt á þann veg að ráðherra getur með reglugerð heimilað slíkan flutning.  Í ljósi þess vanda sem smábátar kljást við vegna langvarandi skorts á ýsuheimildum, mikillar ýsugengdar á miðunum og skerðingar á línuívilnun í ýsu er farið fram á heimild til slíks flutnings á milli kerfa.

 

Aðalfundur Samtaka smærri útgerða mótmælir þeirri skerðingu sem sett var á línuívilnun í haust.  Samtökin krefjast þess að ef verulegar breytingar eru gerðar á línuívilnun þá verði henni úthlutað varanlega samkvæmt aflareynslu líkt  og fordæmi eru fyrir.

 

Aðalfundur Samtaka smærri útgerða ályktar að heimilt verði að einn bátur megi hafa fleiri en eitt leyfi til grásleppuveiða.  Þar sem að leyfi til grásleppuveiða hafa farið úr 90 dögum í 30 daga gætu útgerðir sameinað leyfin á einn bát í stað þriggja og þannig hagrætt í sínum rekstri.

 

Aðalfundur Samtaka smærri útgerða hvetur til þess að meiri jöfnuði verði komið á á milli svæða í strandveiðum.

 

Aðalfundur Samtaka smærri útgerða hvetur til þess að kvótaþakið í krókaaflamarkskerfi verði hækkað til samræmis við þakið í  aflamarkskerfi.  Það er ósanngjarnt að aðilum í krókaaflamarkskerfi sé gert að selja frá sér veiðiheimildir sem þeir höfðu fyrir gildistöku laganna.  Það er mat samtakanna að mörkin séu allt of lág í krókaaflamarkskerfinu.

 

 

 

19. september 2014

Mótmælum skerðingu á línuívilnun

Samtök smærri útgerða (SSÚ) mótmæla harðlega þeirri skerðingu í línuívilnun á ýsu og steinbít sem nú hefur verið ákveðin.  Þar er minnkað það magn sem hefur farið til ívilnunar í ýsu úr 2.100 tonnum í 1.100 tonn og steinbít úr 900 tonnum í 700 tonn.  Þær útgerðir sem notið hafa línuívilnunar hafa eingöngu leyfi til krókaveiða og óhjákvæmilegt er að stór hluti aflans sé ýsa.  Á síðasta fiskveiðiári voru miklir erfiðleikar hjá smábátum við að ná í ýsukvóta og þó voru  veiðiheimildir þá meiri en nú.  Þessi ákvörðun er algjörlega óskiljanleg og mun hafa alvarlegar afleiðingar í byggðum landsins m.a.  með uppsögnum beitningarfólks.    Stjórn SSÚ skorar á ráðherra að endurskoða ákvörðun sína um skerðingu línuívilnunar.

F.h. stjórnar SSÚ Bárður Guðmundsson formaður

1. september 2014

Línuívilnun - nýtt fyrirkomulag

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur gefið út reglugerð nr. 646/2014 um línuívilnun. Reglugerðin öðlast gildi 1. september 2014. Með reglugerðinni eru felld úr gildi ákvæði um símalínu. Þess í stað þarf útgerðaraðili að tilkynna fyrirfram til Fiskistofu um upphaf þess tímabils sem línuveiðar eru fyrirhugaðar með línu sem beitt er í landi eða sem stokkuð er upp í landi.

Í tilkynningunni þarf að koma fram skipaskrárnúmer viðkomandi báts og upphaf línuveiðanna. Tilkynningin gildir aldrei lengur en til loka fiskveiðiárs. Hægt er að senda tölvupóst á netfangið: linuivilnun@fiskistofa.is eða hringja í Fiskistofu í símanúmerið 569-7900 til þess að unnt sé að veita línuívilnun til viðkomandi dagróðrarbáts.

Athygli er vakin á að umsókn í tölvupósti telst því aðeins móttekin að sjálfvirk staðfesting Fiskistofu á móttökunni berist sendandanum

 Tekið af vef Fiskistofu

7. maí 2014

Viðtal við Bárð Guðmundsson formann SSÚ í Skessuhorni 23. apríl 2014

 

30. apríl 2014

Skipstjóra á smábát dæmdar 3 milljónir í bætur vegna vangoldins aflahlutar

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt Lukku ehf. til að greiða skipstjóra sem var á bátnum Narfa SU um nokkurra mánaða skeið tæpar þrjár milljónir króna auk vaxta og greiðslu málskostnaðar vegna vangoldins aflahlutar hans frá hausti 2012 til janúarmánaðar 2013. Þá staðfestir héraðsdómur sjóveðrétt í bátnum vegna þessara krafna. Formaður sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur segir þennan dóm mikinn sigur í réttindabaráttu sjómanna. Deilan snýst um hvernig staðið skuli að uppgjöri til áhafna smærri báta, hvort heimilt sé útgerðinni að draga 30% frá heildaraflaverðmæti fyrir skipti til áhafnar eða ekki. Samkvæmt kjarasamningi sem Landssamband smábátaeigenda gerði við samtök sjómanna, SSÍ, FFSÍ og VM og tók gildi 29. ágúst 2012 skal gert upp við sjómenn á smábátum af heildaraflaverðmæti og komi 21,6% til skipta enda sé búið að gera ráð fyrir olíukostnaði við ákvörðun skiptaprósentunnar. Sjómaðurinn taldi að uppgjör hans hefði ekki verið í samræmi við þennan kjarasamning og höfðaði því málið og vann. Útgerðin, Lukka ehf. taldi sig hins vegar eiga að gera upp eftir kjarasamningi LÍÚ og stærri línubáta, þar sem heimilt er að draga 30% frá heildaraflaverðmæti vegna olíukostnaðar fyrir skipti samkvæmt lögum nr. 24 frá 1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Dómurinn féllst á allar kröfur sjómannsins og taldi engan vafa leika á því að haga bæri uppgjöri í samræmi við kjarasamninga á smábátum. Því bæri útgerðinni að greiða kröfur sjómannsins að fullu. Sjómaðurinn er félagi í Sjómanna- og vélstjórafélagi Grindavíkur sem aðstoðaði hann við málsóknina. Birgir Guðfinnsson, formaður SVG, segir í samtali við kvotinn.is að þetta sé stórsigur fyrir sjómanninn og hann hvetur aðra sem eru í sömu stöðu til að sækja rétt sinn á sama hátt. Lukka sé dótturfélag smábátaútgerðarinnar Einhamars í Grindavík og á bátum Einhamars hafi verið gert upp við sjómenn á sama hátt og á Narfa. „Þarna eru miklar upphæðir í húfi fyrir marga sjómenn og sömuleiðis skiptir þetta félagið okkar máli, því uppgjör af þessu tagi draga úr félagsgjöldum til okkar sem miðast við heildarlaun sjómanna. Ég hvet því þá sem eru í þessari stöðu til að koma á skrifstofuna hjá okkur til að fá aðstoð við að leita réttar síns,“ segir Birgir.  

30. apríl 2014

Umsóknarfrestur um leyfi til makrílveiða

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur gefið út reglugerð nr. 376/2014 um stjórn makrílveiða íslenskra fiskiskipa árið 2014. Einig er út komin reglugerð nr. 377/2014 sem er breyting á ofangreindri reglugerð.

Athygli er vakin á að umsóknarfrestur um leyfi til veiða samkvæmt 2. tölulið 1. málsgreinar 2. greinar reglugerðarinnar er til og með 16. maí 2014.

Hér er umsóknareyðublað um leyfi til veiða á makríl árið 2014

Fyllið út eyðublaðið, vistið það  á eigin tölvu og sendið umsóknina í viðhengi á veidileyfi@fiskistofa.is

Sé tölvan rétt stillt er einnig hægt að velja  "Senda"-hnappinn á eyðublaðinu sjálfu  og  þá verður til tölvupóstur með umsóknina í viðhengi til að senda Fiskistofu.

Sérstök athygli er vakin á að umsókn er ekki gild nema svarpóstur berist sem staðfestir móttöku umsóknarinnar.

 

Hér er hægt að skoða afla og heimildir í makríl á fyrri fiskveiðiárum.

 

Hér er eyðublað til að flytja aflaheimildir í makríl á milli skipa

 

 Tekið af vef Fiskistofu 30.04.2014