Fréttir

27. nóvember 2014

Ályktanir aðalfundar SSÚ 21. nóvember 2014.

 

Ályktanir aðalfundar SSÚ 2014

 

Aðalfundur Samtaka smærri útgerða hvetur til þess að smábátar fái að nýta þau veiðarfæri sem best henta hverju sinni til að sækja sinn kvóta. Það hefur verið erfitt fyrir smábáta að sækja sinn þorskkvóta vegna mikillar ýsugengdar á grunnslóð.  Það myndi létta mjög á vandanum ef smábátum yrði gert kleift að nýta þau veiðarfæri sem þeir telja best henta hverju sinni.

 

Aðalfundur Samtaka smærri útgerða hvetur sjávarútvegsráðherra til að heimila flutning aflaheimilda í þorski frá krókaaflamarkskerfi yfir til aflamarkskerfis fyrir ýsu á grundvelli þorskígilda innan fiskveiðiársins.  Lögum um stjórn fiskveiða hefur þegar verið breytt á þann veg að ráðherra getur með reglugerð heimilað slíkan flutning.  Í ljósi þess vanda sem smábátar kljást við vegna langvarandi skorts á ýsuheimildum, mikillar ýsugengdar á miðunum og skerðingar á línuívilnun í ýsu er farið fram á heimild til slíks flutnings á milli kerfa.

 

Aðalfundur Samtaka smærri útgerða mótmælir þeirri skerðingu sem sett var á línuívilnun í haust.  Samtökin krefjast þess að ef verulegar breytingar eru gerðar á línuívilnun þá verði henni úthlutað varanlega samkvæmt aflareynslu líkt  og fordæmi eru fyrir.

 

Aðalfundur Samtaka smærri útgerða ályktar að heimilt verði að einn bátur megi hafa fleiri en eitt leyfi til grásleppuveiða.  Þar sem að leyfi til grásleppuveiða hafa farið úr 90 dögum í 30 daga gætu útgerðir sameinað leyfin á einn bát í stað þriggja og þannig hagrætt í sínum rekstri.

 

Aðalfundur Samtaka smærri útgerða hvetur til þess að meiri jöfnuði verði komið á á milli svæða í strandveiðum.

 

Aðalfundur Samtaka smærri útgerða hvetur til þess að kvótaþakið í krókaaflamarkskerfi verði hækkað til samræmis við þakið í  aflamarkskerfi.  Það er ósanngjarnt að aðilum í krókaaflamarkskerfi sé gert að selja frá sér veiðiheimildir sem þeir höfðu fyrir gildistöku laganna.  Það er mat samtakanna að mörkin séu allt of lág í krókaaflamarkskerfinu.