Fréttir

15. mars 2014

Ígildaleiðin

Heilmikið hefur verið rætt og ritað um ýsuvandamál smábáta.  Vandinn er öllum ljós en minna er um lausnir.  Samtök smærri útgerða SSÚ hefur ítrekað rætt um leiðir sem leyst geta þennan vanda.  Þar er m.a. um að ræða svokallaða ígildaleið.

 

Ígildaleiðin þýðir í raun enga breytingu á úthlutun á veiðiheimildum frá því sem er í dag.  Línubátar geta hinsvegar veitt þann fisk sem er til staðar á þeirra heimamiðum og ígildi aflans reiknuð eftir hverja löndun.  Það eru nú þegar notaðir ígildisstuðlar fyrir allan fisk og miðað er við að þorskur sé eitt ígildi.  Síðan eru ígildi tegunda reiknuð út frá verðmæti á hverju fiskveiðiári, nú er ýsa t.d. 1,15 þorskígildi, skötuselur 1,98, ufsi 0,82 og steinbítur 0,95 svo nokkrar tegundir séu nefndar.  Þannig að ef veidd eru eftir ígildaleið 100 kg. af ýsu þarf að leggja til 115 kg. þorskkvóta.  Ég tel hættuna af ofveiði einhverra tegunda hverfandi þó að ígildaleiðin væri farin.   Ígildaleiðin myndi öllu heldur endurspegla ástandið á miðunum  hverju sinni og gæti verið góð viðbót í gagnagrunn  Hafrannsóknarstofnunar og styrkja stofnunina til að meta ástand fiskistofna hverju sinni.  Ýsuvandamál smábáta er mikið og getur haft alvarleg áhrif á útgerð þeirra.   Nú skiptir máli að bregðast við ástandinu, sjá tækifærin sem eru fyrir hendi og nýta þau.  Ígildaleiðin er góður kostur í stöðunni og vel þess virði að láta á hana reyna.

Ígildaleiðin er umhverfisvæn, sýnir vel stöðu og breytingar á fiskistofnum á hverju svæði fyrir sig og engum er betur ljóst og treystandi en smábátasjómönnum, hversu nauðsynlegt er að ganga vel um fiskimiðin sem þeir sækja.

Bárður Guðmundsson, formaður SSÚ