Ályktanir
Samþykktar á aðalfundi Samtaka smærri útgerða
á Grand hóteli 7.nóvember 2025
Aðalfundur Samtaka smærri útgerða mótmælir harðlega því óréttlæti sem felst í því að veiðigjaldið sé það sama í báðum kerfum þegar krókaaflamarkskerfið býr við það að mega ekki róa á þeirri stærð báta sem best hentar og nýta þau veiðarfæri sem hagkvæmust eru og henta til veiða hverju sinni. Það er óeðlilegt að notaður sé sami grunnur til útreiknings veiðigjalds vegna allra þeirra takmarkana og hafta sem gilda um krókaaflamark. Samtökin mótmæla þeirri mismunun sem í þessu felst í rekstri útgerða.
Aðalfundur Samtaka smærri útgerða hvetur til þess að kvótaþakið í krókaaflamarkskerfi verði hækkað til samræmis við þakið í aflamarkskerfi. Það er mat samtakanna að mörkin séu allt of lág í krókaaflamarkskerfinu og ósanngjarnt að ekki eigi það sama við um bæði kerfi.
Aðalfundur Samtaka smærri útgerða leggur til að unnið sé að því að taka út brúttótonnamælingu í stærðarmörkum báta enda er það úrelt mæling. Eðlilegra er að miða eingöngu við metra eins og gert er í öllum öðrum skipaflokkum.
Aðalfundur Samtaka smærri útgerða mótmælir því harðlega að við endurnýjun eldri réttinda skipstjórnarmanna 30 brúttótonna báta séu gefin út ný skírteini sem miðast við 15 metra báta og þannig séu réttindi skert. Eðlilegt væri að miða við næstu stærðarmörk 24 metra eins og gert er í öðrum flokkum báta t.d. þegar 200 tonna réttindi urðu 45 metrar.
Línuívilnun er einn þeirra þátta í stjórnkerfi fiskveiða sem eflir atvinnu í hinum dreifðu byggðum og er ein best heppnaða byggðaaðgerð sem ráðist hefur verið í. Samtök smærri útgerða skora á ráðherra að tryggja og auka aflaheimildir til línuívilnunar og að heimila öllum krókaaflamarksbátum sem róa með línu að nýta línuívilnun og styðja þannig við línuútgerð í landinu. Aðalfundur Samtaka smærri útgerða leggur til að ef að heimild til línuívilnunar í einhverri tegund klárast ekki fyrir lok hvers fiskveiðiárs þá skuli ráðherra færa ónýttar heimildir á milli fiskveiðiára þannig að heimildir til línuívilnunar nýtist til fulls.
Aðalfundur Samtaka smærri útgerða mótmælir því að línu- og netaveiðar séu af Hafrannsóknarstofnun settar undir sama hatt og togveiðar varðandi vernd fisksvæða.
Aðalfundur Samtaka smærri útgerða mótmælir drónaeftirliti Fiskistofu sem fundurinn telur að sé á mjög gráu svæði hvað varðar persónuverndarsjónarmið, stjórnarskrá og önnur lög. Með tilliti til þrígreiningar ríkisvalds telur aðalfundur einnig mjög óeðlilegt að Fiskistofa hafi það hlutverk að rannsaka brot, dæma og ákvarða refsingu auk þess að skera sjálf úr um hvort rannsóknin sé lögmæt eður ei.
Aðalfundur Samtaka smærri útgerða skorar á ráðherra að færa aflareglu í þorski aftur í 25%. Það er upplifun félagsmanna að staða stofnsins sé mjög góð.
Aðalfundur Samtaka smærri útgerða krefst þess að löndun á hvítlúðu sem meðafla verði leyfð, enda sé ekki um beina sókn að ræða. Um andvirði aflans skal fara með eins og andvirði annars afla.
AIS kerfið hefur fyrir löngu sannað gildi sitt sem gríðarlegt öryggistæki sjómanna og sjófarenda. Samtök smærri útgerða hvetja til þess að AIS kerfi skipa verði bætt þannig að svokallaðir „dauðir punktar“ í kerfinu heyri sögunni til.
Aðalfundur Samtaka smærri útgerða fagnar því að gsm samband við sjófarendur hefur verið lagað mikið. Enn eru þó nokkrir dauðir punktar m.a. frá Straumnesi og austur fyrir Horn og í sunnanverðum Faxaflóa sem mikilvægt er að laga.